Eitt af markmiðum Nordjobb er að auka áhuga þátttakenda á Norðurlöndunum og norrænu samstarfi.

Í gegnum vinnuna kynnist maður nýju landi og með þátttöku í menningar- og frístundadagskránni myndast tengsl við ungt fólk frá hinum Norðurlöndunum. Nordjobb er fyrsta skrefið fyrir marga inn í hið Norræna samstarf. Þegar starfið tekur svo enda eru þónokkrir möguleikar í boði til að halda hinum norrænu tengslum opnum:

Ung norræn

Ungmennadeild Norræna félagsins á Íslandi (UNF)

Ung norræn er ungmennadeild Norræna félagsins á Íslandi. Við erum hópur ungmenna sem hefur áhuga á norrænu samstarfi og villa stuðla að auknu samstarfi á milli Norðurlanda. Því við teljum að með því getum við stuðlað að auknum lífsgæðum íbúa allra Norðurlanda.

Til að vinna að markmiðum okkar þá reynum við að halda úti öflugu starfi. Það felst meðal annars í hinum ýmsu skemmti-, fræðsu- og menningarviðburðum, vitundarvakningu um ágóða ungmenna af norrænu samstarfi auk hagsmunabaráttu gagnvart stjórvöldum, bæði á Íslandi og öðrum vettvöngum Norðurlanda.

Ef þú ert á aldrinum 16-30 ára, deilir áhuga okkar á öllu því sem er norrænt og vilt hjálpa til við að vinna að enn meira samstarfi milli Norðurlandanna, þá máttu endilega skrá þig með því að smella á rauða hnappinn hér til hægri (Ganga í Norræna félagið). Það kostar ekkert að vera með!


Norræna félagið

Norræna félagið

Norræna félagið er gamalgróið félag í stöðugri endurnýjun. Það var stofnað árið 1922 til að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa og er sú hugsjón hið fasta leiðarljós félagsins.

Norræna félagið starfar í 16 félagsdeildum um allt land. Starf félagsdeilda er mjög fjölbreytt, en víða er kjölfesta deildanna norrænt vinabæjasamstarf, ungmennaskipti, viðburðahald og samstarf við viðkomandi sveitarfélag um norræn verkefni. Norræna félagið er félag í vexti og fjölgar félagsdeildum reglulega.

Skrifstofa Norræna félagsins á Íslandi veitir félagsmönnum og öllum almenningi á Íslandi góða og faglega þjónustu um Norðurlönd og norrænt samstarf. Starfsfólk skrifstofunnar og félagskjörnir fulltrúar sinna fjölbreyttum verkerfnum sem öll hafa að markmiði að styðja við samstarf Norðurlanda á flestum sviðum.


Nordjobbfulltrúar

Nordjobbambassadörer

Nordjobb kynnir með glöðu geði verkefnið Nordjobbfulltrúar í samstarfi við Norrænu félögin í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Verkefnið er fjármagnað af Nordisk Kulturkontakt og Norden 0-30.

Tilgangur verkefnisins er að miðla þekkingu og hvatningu á milli norrænna ungmenna varðandi atvinnu og menningu á Norðurlöndunum. Fyrrverandi Nordjobbarar verða fulltrúar sem taka að sér skapandi upplýsingaverkefni á Norðurlöndunum. Markmið verkefnisins er að hvetja ungt fólk og lækka þröskuldinn inn í atvinnu- og menningarlíf sem og tungumál Norðurlandanna.